145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hv. þm. Karl Garðarsson, 3,3% á tólf mánuðum eru minna en 9,7% á sjö mánuðum, bara til þess að leiðrétta þetta.

Að því máli sem ég ætlaði að tala um, þá hafa mér borist tölvupóstar á undanförnum dögum. Ég taldi í morgun 136 pósta þar sem skorað var á þingmenn að hlusta á fjölskyldur með veik börn. Ég veit sem lítill varamannslúði að ég fæ miklu færri tölvupósta en aðrir þingmenn, miklu færri, þótt ég sé ekki með nákvæmar tölur um það.

Í nokkrum öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum og Bretlandi, er hægt að senda inn beiðni til yfirvalda. 100 þús. undirskriftir og það kemur svar frá yfirvöldum eða umræða á þingi. 100 þús. undirskriftir í þessum löndum eru sama og ekki neitt, þetta eru 0,04% af kjósendum í Bandaríkjunum og 0,2% í Bretlandi. Á Íslandi væru þetta í kringum 100–450 undirskriftir með sama hlutfalli. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er talað um 2% landsmanna og 10% landsmanna sem geti haft áhrif á gang mála á Alþingi, það eru 4.600 manns til að mynda, tífalt fleiri en viðmiðið í Bretlandi.

Ég skora á Alþingi að fara að hlusta aðeins betur á það sem fólk er að segja. Meira lýðræði, ekki minna, ekki bara á fjögurra ára fresti. Á sama tíma getum við auðvitað ekki haft þá starfssiði að einstaka mál geti verið háð duttlungum þingmanna. (Forseti hringir.) Við verðum eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að vera með skýrt ferli og lögin skýr. Af hverju dettur þetta fólk svona inn á milli? Ég kalla eftir lagfæringum.