145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni viðleitni hans í því að kenna mér og leiðbeina mér um hvað sé við hæfi og hvað sé ekki við hæfi að ræða í umræðunni.

En mig langar að segja það í fullri vinsemd að samskipti forustu hv. fjárlaganefndar við almenning í landinu, við Landspítala – háskólasjúkrahús, það sem formaður fjárlaganefndar hefur sagt um opinbera starfsmenn, það sem formaður fjárlaganefndar hefur sagt um Landspítala – háskólasjúkrahús, þau samskipti og þetta orðfæri er partur af því hvernig núverandi ríkisstjórn, forusta hennar og forusta fjárlaganefndar fer með vald; með yfirgangi, með dónaskap, með orðalagi sem er engum sæmandi, virðulegi forseti.

Ég skil vel að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi ekki áhuga á að ræða þetta annars staðar en á kaffistofunni.