145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:14]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og undirtektirnar. Ég skildi hann þannig að hann væri sammála því að ríkisábyrgð á bönkum væri óumflýjanleg. Það hefur margsannað sig að bankar sem eru of stórir til að falla verða ekki látnir falla. Það verða alltaf skattgreiðendur sem koma þessum bönkum til bjargar og þess vegna er eðlilegt að þeir greiði einhvers konar ábyrgðargjald. Hversu hátt það á að vera er spurningin.

Hin leiðin er að sjálfsögðu sú að taka af þeim það verkefni að reka þá innviði sem eru peningarnir sem við notum í daglegum rekstri, fela þeim að vera bara bankar, þ.e. ákveða hverjir fá lán og bjóða sparifjáreigendum upp á sparnaðarleiðir. Ég legg ekki til hérna að lánastarfsemi verði ríkisvædd heldur bara sá grundvöllur að búa til rafkrónurnar alveg eins og grundvöllurinn að því að búa til seðlana er núna ríkisvæddur. Ég held að það hafi ekki hvarflað að okkur að (Forseti hringir.) taka seðlavaldið og færa það til bankanna til að bæta stöðuna.