145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið í heild sinni er fyrir margar sakir vandað og gert ráð fyrir afgangi en það er margt sem þingmenn geta haft sínar skoðanir á. Ég er frjáls til að hafa skoðanir á því að ég tel að þetta sé ekki tímabært eins og ég lýsti í ræðu minni hérna áðan og ég styð það ekki í sjálfu sér að 30% hlutur í þessum banka verði seldur eða nokkur annar hlutur í honum. Ég held að það sé ótímabært, og vond niðurstaða fyrir fólkið í landinu. Ég hef lagt til að við nýtum okkur tækifærið sem felst í því að eiga þennan hlut með því að breyta eigendastefnu bankans svo hann leiði aukna samkeppni á fjármálamarkaði, ekki með niðurgreiðslum úr ríkissjóði heldur skili hóflegri arði í ríkissjóð. Þá verða aðrir bankar að fylgja þegar svo stór banki tekur til við að bjóða betri kjör. Það mundi nýtast landsmönnum allra best ef við bærum gæfu til að breyta eigendastefnu með þeim hætti. Við eigum að nota tækifærið sem felst í því að eiga þennan banka. Það er ekki nægilega virk samkeppni á bankamarkaði, það eru þrír stórir bankar og jarðvegur fyrir fákeppni. Þá er tækifæri fyrir ríkið til að grípa inn í með einum eða öðrum hætti. Ég held að þetta sé langminnsta inngripið sem við getum nokkurn tímann gert og það áhrifaríkasta, að breyta eigendastefnunni heimilunum í hag, minnka vaxtamuninn og (Forseti hringir.) lækka gjöldin.