145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:31]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa áhugaverðu umræðu um lífeyrissjóðina sem eru að reyna að ávaxta 3 þús. milljarða til framtíðar. Það er mjög vandasamt verkefni og verður stærra ef þeir ávaxta líka skatttekjur framtíðarinnar. Það er ekkert víst að það takist og kannski er þess vegna snjallt, eins og Vigdís er að velta fyrir sér, að nota þennan skatthluta til að lækka skuldir ríkissjóðs núna, búa í haginn fyrir framtíðina og komandi kynslóðir með því að gera betri innviði, betra heilbrigðiskerfi og skuldminni ríkissjóð þegar kemur að þessu í framtíðinni. Þá geta skattar verið lægri. Það væri hægt að fara þá millileið sem Pétur Blöndal heitinn og fleiri þingmenn ræddu, þar á meðal ég, á síðasta þingi, að taka kannski lítil skref og byrja á séreignarsjóðunum. Það mundi skila mjög miklu í ríkissjóð og væntanlega líka til sveitarfélaganna og það gæti leitt til þess að draga hratt (Forseti hringir.) úr skuldum ríkissjóðs.