145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Guð láti á gott vita, hv. þingmaður. En ég undrast þetta eins og þingmaðurinn og verð að segja að framganga stjórnarmeirihlutans við þessa umræðu er ekki með þeim hætti að maður eigi von á því að hér birtist frumvarp um eignasölu upp á hundruð milljarða á næstu dögum og ríkisstjórnin vilji eiga einhverja samræðu um stjórnarandstöðuna um slíkt stórkostlegt málefni í kjölfarið.

Það er afar miður að svona stórir liðir séu beinlínis rangir í frumvarpinu þegar það kemur til 2. umr. Ég man satt að segja ekki í annan tíma að forusta fjárlaganefndar hafi afgreitt frumvarp jafn rangt til umræðu í þinginu eins og núna er og segir allt um vinnubrögðin.

Ég vildi nota tækifærið og spyrja hv. þingmann um sóknaráætlunina og kannski sérstaklega um stöðuna í Norðvesturkjördæmi. Nú höfum við nýlega fengið yfirlit um þróun hagvaxtar eftir svæðum á landinu. Telur hv. þingmaður að grípa þurfi til frekari aðgerða en gert er ráð fyrir í frumvarpinu einmitt á þessu svæði, m.a. í styrkingum á innviðum, hvort heldur er vegum eða fjarskiptum eða öðru slíku eða velferðarþjónustunni eða í þróun á atvinnulífi? Mér hefur þótt þær tölur sem við höfum séð um hagvöxt þar á undanförnum árum ekki vera á sumum svæðum jafn blómlegar og þær eru sums staðar annars staðar í landinu og gætu verið full efnisrök fyrir því að gera sérstakar ráðstafanir fyrir því að gera sérstakar ráðstafanir fyrir kjördæmi þingmannsins, Norðvesturkjördæmið.