145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég hef skilið þetta rétt gera menn ráð fyrir því að geta greitt upp að minnsta kosti bréfið við Seðlabankann á næsta ári, nota þá fyrstu fjármunina sem losna og koma til ríkisins í það og að þar af leiðandi lækki vaxtakostnaðinn. Það verður einhvern veginn að bókfæra tekjurnar. Það verður mjög sérkennileg staða ef bæði fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum næsta árs verður lokað án þess að þess sjái á neinn hátt stað fyrir áramótin af því að þetta er auðvitað að bresta á. Öðrum hvorum megin við áramót eða fljótlega upp úr áramótum í öllu falli má þá vænta þess að búin skili stöðugleikaframlögunum til ríkisins vegna þess að þeim liggur á. Þau vilja síðan fara út með eignir sínar, greiða til sinna kröfuhafa þannig að það verður ekki hangsað yfir því ef ég spái rétt í hlutina.

Varðandi barnabæturnar, vaxtabæturnar og leigjendur má nálgast það mál frá mismunandi hliðum. Ein leið er að segja að þarna hafi stjórnin fundið aðferð til að hafa af þessum fjölskyldum (Forseti hringir.) þær kjarabætur sem aðrir fá með því að það verða skerðingar á barnabótum og vaxtabótum. Með öðrum orðum má líka segja að þessar fjölskyldur séu þá látnar borga hækkun matarskattsins sjálfar.