145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég tek undir fyrst með hv. þingmanni að það er mikil synd að hv. þingmenn, sem ég beindi máli mínu til og höfðu í sínum eigin ræðum skorað á mig að koma og tala um stóru línurnar, skuli skoppa í burtu. Ég talaði um stóru línurnar en þá gufuðu þeir upp eins og morgundöggin. [Hlátur í þingsal.] Það er mjög merkilegt að þeir treysti sér ekki heldur til þess að svara fyrir þær nýju stofnanir sem þeir eru núna að reisa, sömu menn og voru að berja á mér að loka sendiráðum í kreppunni, sem var jákvætt. Ég gerði það. Svo eru þeir að opna sendiráð. Ég tek undir að það er mjög skrýtið að sjá hversu dug- og huglausir menn verða.

Varðandi heilbrigðiskerfið þá er það algjörlega klárt að þjóðin vill í fyrsta lagi setja pening í það og í öðru lagi eru til peningar, það liggur alveg ljóst fyrir. Það þarf 3 milljarða meira í þjóðarspítalann. Það hefur verið rökstutt frá öllum hliðum. Hv. þm. Willum Þór Þórsson orðaði það svo að heilbrigðiskerfið væri þannig að jafnvel sums staðar væri það lekt í bókstaflegri merkingu. Ég held að hann hafi minnst á Grensás. Hv. þm. Willum Þór Þórsson, lengi er nú von á einum og kannski er þar vonarsproti okkar, sagði í ræðu sinni fyrr í umræðunni að hann ætlaðist til að hans stjórnvald gerði sátt við spítalann og hann nefndi þar sjálfur tölu sem væri einhvers konar millivegur, 1–2 milljarðar. Þetta sagði hv. þingmaður í ræðu sinni. Það er betra en ekkert. Mér finnst mikilvægt að við búum vel að þjóðarspítalanum.

Það er ákveðin hugmyndafræði sem er þó að birtast hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún er meðal annars sú að hann vill setja meira í heilsugæsluna og telur að með fjárfestingum þar muni draga úr þörfinni hjá þjóðarspítalanum, en hann gerir sér grein fyrir því að það verður síðar, hvort tveggja á auðvitað að gera vegna þess að þetta vinnur saman. Um heilbrigðisráðherrann er það þó aðallega að segja að hann virðist önnum kafinn við það að láta eins og hann sé ekki til, vera undir radar. Það tókst svo gríðarlega vel í gær að þegar Kári Stefánsson skrifaði massífa árás vegna heilbrigðismála á ríkisstjórnina þá tókst honum að gera það án þess að minnast einu sinni á Kristján Þór Júlíusson, hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er greinilega öllum gleymdur, líka þeim sem vinna í kerfinu.