145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég harma auðvitað mjög og græt þau glötuðu ár sem liðin eru frá því að við í fyrri ríkisstjórn settum fram fjárfestingaráætlun 2012. Má ég þá minna á að stór hluti af þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi var settur af stað með henni eins og Norðfjarðargöng og framkvæmdir á Vestfjörðum og fleiri stöðum? Það er líka rétt að við fleyttum áfram á árunum 2009, 2010 og að einhverju leyti inn á árið 2011 býsna miklum framkvæmdum þrátt fyrir erfiðleikana og kreppuna. Við leyfðum til dæmis Vegagerðinni að færa yfir ónýttar fjárheimildir sínar nánast að fullu milli ára. Það var rausnarlegri úrlausn fyrir þann málaflokk en flestir aðrir fengu þar sem nánast alls staðar annars staðar var allt umfram 10% skorið af við lokafjárlög ársins 2008. Þannig að við hlúðum að samgöngumálunum eins og við lífsins gátum á þeim erfiða tíma, en nú er annar uppi.

Hvað á að gera? Það þarf fjármuni, það er ljóst. Mér finnst algerlega einboðið að núna ætti að hækka mörkuðu tekjustofnana til fulls. Nú er lag. Eldsneytisverð er mjög lágt. Þannig að í staðinn fyrir að missa tekjurnar niður þá á að láta umferðina borga. Hún er að aukast. Þá borga allir, líka bílaleigubílarnir sem útlendingarnir keyra á og það þarf vegi fyrir þá. Veruleikinn er nefnilega sá að það er stórkostlega hættulegt af svo mörgum ástæðum að svelta þennan málaflokk. Ferðaþjónustan kallar þar á úrbætur. Það má líta á það sem góða fjárfestingu í mikilvægustu gjaldeyrisöflunargrein þjóðarinnar. En búsetan á landsbyggðinni er mér þó efst í huga. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta ástand endalaust. Hvenær kemst Borgarfjörður eystri í nútímavegasamband? Hvenær með þessu áframhaldi? Hvenær verður akfær vegur ef svo er hægt að orða það inn Bárðardal að vestanverðu sem er hluti af Sprengisandsleið þar sem menn komast varla á venjulegum bíl án þess að sprengja eitt til tvö dekk? Þetta er ekki hægt. Við erum ekki svo aum og fátæk að við getum ekki gert betur. Þannig að ég tel auðvitað að þetta ætti að vera í forgangi og það eina sem réttlætti það að hafa fótinn (Forseti hringir.) létt á bremsunni væri þensla í samfélaginu.