145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:43]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég held að best sé að ég haldi áfram þar sem frá var horfið hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Við vorum til dæmis að ræða fyrrverandi húsameistara ríkisins, Guðjón Samúelsson. Eitt sem einkennir svolítið breytingartillögur hv. meiri hluta fjárlaganefndar og hæstv. ríkisstjórnar er keimur af ákveðinni rómantískri þjóðernishyggju og fornaldarþrá.

Það er svolítið gaman að nefna að þegar ég byrjaði að læra sagnfræði í Háskóla Íslands var fyrsta spurningin sem prófessor þar spurði okkur: Hvenær varð Ísland að þjóð? Síðan var þetta gegnumgangandi spurning um sjálfsmynd þjóðar. Hvenær verður þjóð að þjóð? Af hverju verður þjóð að þjóð? Það var ekki fyrr en á næstu önn sem svarið kom, að þjóð yrði til þegar þjóð ákvæði að hún væri til og að þjóð yrði til svo lengi sem menn ákvæðu að þeir vildu vera þjóð. Íslendingar sem þjóð urðu ekki til fyrr en á 19. öld þegar þjóðernishyggjan varð til og þegar þjóðir urðu til. Það er alla vega talað um það innan sagnfræðinnar. Það má ábyggilega deila um það innan annarra fræðigreina, sömuleiðis innan sagnfræðinnar. Hvenær verður þjóð að þjóð? Það er mjög skemmtileg sagnfræði og saga sem liggur þar að baki. Það sem gerðist á 19. öld var að ákveðin rómantísk þjóðernishyggja fór um allt. — Þarna eru helstu þjóðernissinnarnir mættir, hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson og Ásmundur Einar Daðason. Eins og hv. þingmenn vita er ég náttúrlega mjög þjóðleg að eðlisfari (Gripið fram í: Prjónar.) þar sem ég stunda mikið prjón [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Úr íslenskri ull.) úr íslenskri ull, háttvirtri, (Gripið fram í: Háttvirtri?) hvorki meira né minna.

Það sem mig langar að vekja athygli á er hvernig þjóðernisleg fornaldarþrá sem einkenndi rómantíska þjóðernishyggju á 19. öld svífur yfir vötnum þegar maður les yfir breytingartillögur hv. meiri hluta. Það er skemmst frá því að segja ef ég les úr tillögu meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918, samanber fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins, og áform um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands.“

Guðjón Samúelsson var mjög merkur maður. Hann byggði mikið í ákveðnum þjóðlegum stíl. Hér eru hús eftir hann sem minna á burstabæi. Það var mikið deilt um það hér á árum áður, sér í lagi hvað varðar hvernig Íslendingar bjuggu, þannig að mikið var gert út úr því að byggja virðulegan húsakost handa Íslendingum til að þeir mundu verða almennilega menningarlegir. Guðjón Samúelsson var einn af fyrstu húsameisturum ríkisins. Það er svolítið skemmtilegt þegar maður les frumvarpið yfir og þarf ekki að fara lengra en á næstu síðu þar sem er nýr liður, Húsameistari ríkisins. Allt í einu er hann kominn aftur, genginn aftur eins og draugur.

Ég verð nú bara að spyrja: Er ekki kominn tími til að halda áfram og reyna að komast aðeins inn í 21. öldina?

Í meirihlutaálitinu er rökstuðningurinn sá að liðurinn húsameistari ríkisins sé kominn til vegna skipulagsbreytinga í forsætisráðuneytinu. Það er sem sagt bara verið að færa fjárlagaliði sem áður heyrðu undir viðhald, fasteignir og fleira slíkt undir húsameistara ríkisins. Þetta ber í raun og veru merki um fornaldarþrá. Það var einhvern tímann til gott og betra Ísland. Það var einhvern tímann gullöld. Það virðist vera sem hæstv. forsætisráðherra telji að þessi gullöld hafi verið um 1920–1930 þegar Guðjón Samúelsson heitinn teiknaði margar merkar byggingar.

Það hefur verið deilt um það hversu falleg þessi teikning er sem nú er höfð til hliðsjónar. Hún er í sósíalrealískum stíl og um hana hafa hörð orð verið látin falla hér í þingsal eins og að hún sé beinlínis ljót. Ég er ekki alveg sammála því en það er bara smekksatriði. Það sem mér finnst í raun og veru merkilegast við þetta er þessi þjóðernishyggja og fornaldarþrá og ekki bara það heldur: Af hverju erum við ekki að nýta þann mannauð sem við höfum?

Núna eru uppi ákveðnar deilur, svo ekki sé meira sagt, um atgervisflótta. Það var mikið rætt, sérstaklega í kjölfar hrunsins, um verkefnaleysi arkitekta. Við erum að fara að setja 75 milljónir í lið undir heitinu Framkvæmdir á Alþingisreit. Það er búið að afmarka það. Ég veit ekki alveg hvernig það samræmist höfundalögum, ef ég á að segja alveg eins og er, nú er ég tiltölulega fróð um höfundalög, að taka teikningar Guðjóns Samúelssonar og blanda þeim saman við einhverjar nýjar teikningar. Ég er ekki viss um að það mundi falla vel að heiðri listamannsins. Það er bara þannig að eitt sinn verða allir menn að deyja og stundum er bara komið nóg. Guðjón Samúelsson átti mikinn þátt í því að skapa Reykjavík og gera hana að fallegum bæ. Ég er mjög þakklát fyrir það. Án hans væri Reykjavík allt öðruvísi. Það verður bara að segjast. Hins vegar finnst mér í raun og veru verið að vega að höfundarheiðri Guðjóns Samúelssonar með því að taka hugmyndir hans. Það sem þarf í raun að gera er að taka teikningarnar hans og færa þær í nútímalegt horf. Ég veit ekki alveg hvernig það samræmist hugmyndum um höfundarheiður samkvæmt höfundalögum. Ég veit ekki hvernig rétthafarétti á verkum Guðjóns Samúelssonar er háttað en mér skilst að hann sé í höndum ríkisins. Þrátt fyrir það þá er það líka siðferðisleg spurning hvort rétt sé að nýta 100 ára gamla teikningu til þess að byggja hús núna.

Þetta veldur mér hugarangri, ekki einungis vegna þeirra hugmynda sem ég sé skína frekar skýrt og greinilega í gegn í þessu meirihlutaáliti sem eru breytingar hæstv. forsætisráðherra upp á samtals 305 milljónir. Þetta eru mestmegnis tilfærslur, fyrir utan nýja liði eins og húsafriðunarsjóð. Það er líka annað sem við þurfum að fara að taka almennilega og heildstæðara á. Hús þurfa ekkert endilega að vera merkileg þótt þau séu orðin gömul. Það er þjóðerniskennd sem við látum oft fara svolítið með okkur.

Síðan er annað sem ég tók eftir og er alveg óháð þessu. Það er 5 millj. kr. tímabundið framlag til Lions-hreyfingarinnar. Ég væri til í að fá betri útlistun á því hvaðan það kemur eiginlega. Ég skil það ekki. En það er óháð öllu því sem ég hef verið að ræða hér.

Þetta meirihlutaálit og þær hugmyndir sem eru lagðar til grundvallar, um endurreisn húsameistara ríkisins svo langt aftur að hann gengur liggur við aftur í teikningum nútímaarkitekta, eru mjög einkennilegar. Ég verð bara að segja að ég skil vel að fólk spyrji spurninga þegar kemur að þessu, sérstaklega í ljósi að hugmyndin var fyrst sett fram 1. apríl 2015. Ég var sannfærð um að þetta væri djók.