145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta var áhugaverð yfirferð yfir þessar setningar nefndarálitsins þar sem fjallað er um þennan þátt og byggingar á Alþingisreitnum. Ég er mikill aðdáandi þess sem Guðjón Samúelsson gerði á sínum tíma. Byggingunum sem hann á í borginni fylgir reisn, en þær eru merki um ákveðinn tíma. Mér finnst við ekki sýna þeim tíma mikinn sóma með því að umbreyta honum og þeim stíl yfir í að þetta verði nýtilegra fyrir okkur og þá aðstöðu sem við gerum ráð fyrir að búa við í dag sem er allt önnur en var þá. Mér finnst þetta að því leytinu til sérkennilegt og er sammála hv. þingmanni, mér finnst þetta undarleg hugmynd og sögu þessa arkitekts ekki sýndur sómi. Hið sama á við um þau skilaboð sem þetta eru til nútímaarkitekta sem eru líka að gera frábæra hluti og eiga að vera þeir sem síðan er talað um eftir 100 ár sem stórkostlega listamenn, skulum við segja, síns tíma sem settu mark sitt á borgarmyndina þá. Við verðum að losa okkur út úr þessu. Við eigum stórkostlega mikinn mannauð á þessu sviði sem ég held að við eigum að nýta og gefa tækifæri á að setja mark sitt á þetta pínulitla tímabil sögunnar sem við erum á núna. Ég er sammála hv. þingmanni og þakka henni fyrir að hafa vakið athygli á þessu.