145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að spyrja hv. þingmann út í margt í góðri ræðu hans, t.d. að því er varðar Landspítalann. En ég vil einblína á tvennt sem hann nefndi, annars vegar framlögin til Ríkisútvarpsins og hins vegar frumkvæðisathuganir umboðsmanns Alþingis. Mér finnst nefnilega þessu tvennu svipa nokkuð saman.

Ríkisstjórnin er ósátt við sjálfstæða fréttamennsku Ríkisútvarpsins. Ég held að það fari ekki fram hjá nokkrum manni. Hnýfilyrði ráðherra og forustumanna fjárlaganefndar í garð Ríkisútvarpsins aftur og aftur hafa vakið athygli.

Við vitum það líka að stjórnarmeirihlutinn hefur þurft að sjá að baki einum ráðherra vegna mistaka í starfi og þau mistök urðu uppvís vegna frumkvæðisathugunar umboðsmanns Alþingis. Meðan á þeirri rannsókn stóð höfðu bæði forsætisráðherra landsins og fjármálaráðherra uppi orð þar sem þeir gagnrýndu umboðsmann fyrir framgöngu hans í lekamálinu, fyrir forgangsröðun hans og fyrir þær aðferðir sem hann notaði við rannsóknir á birtingu upplýsinga úr henni.

Ég vil þess vegna spyrja: Getum við dregið þá ályktun af þessum tveimur dæmum, ítrekuðum gagnrýnisorðum forustumanna stjórnarmeirihlutans í garð þessara sjálfstæðu eftirlitsaðila, því auðvitað eru þeir það þó með ólíkum hætti sé, að ríkisstjórnin sé einfaldlega á einhverri hálffasískri vegferð að veikja sem kostur er fjölbreytileikann og aðhaldið sem hún á að sæta í lýðræðissamfélagi?