145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún hóf mál sitt á skattapólitíkinni sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Þegar við höfum verið að fjalla hér um eitt af þeim stóru málum sem eru hvað plássfrekust í umræðunni, eldri borgara og öryrkja og kjör þeirra, þá hefur komið fram að þær skattbreytingar sem gerðar hafa verið eru ekki í þeirra þágu. Svar fjármálaráðherra hefur verið í þá veru að þeir lægst launuðu borgi ekki skatt til ríkisins. Manni finnst hálfundarlegt þegar eingöngu er miðað við það þegar fram kemur hjá öryrkjum að ef lægsta þrepið hefði verið lækkað um 1,4% en ekki 0,8%, minnir mig, hefði það skilað á ársgrundvelli í kringum 35 þúsund til öryrkja í staðinn fyrir rétt rúmlega 5 þús. kr. Það er auðvitað kjarabót að hreyfa við því lægsta til handa þeim sem minnst hafa. Þetta er ekki rétt hjá fjármálaráðherra, nema jú hjá þeim sem eru alveg innan við 200 þúsund, fyrir utan viðmiðunarmörkin sem við þekkjum í barnabótum o.fl.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í þetta og þá sérstaklega varðandi skattalækkanir yfir höfuð. Telur hún þetta skynsamlegt núna og telur hún að það geti valdið þenslu í samfélaginu? Varðandi eldri borgara og öryrkja þá kemur fram í umsögn Öryrkjabandalagsins til fjárlaganefndar vegna fjárlagafrumvarpsins að það óski eftir að virðisaukaskattur verði lækkaður á hjálpartæki og lyf, helst afnuminn en ef það gangi ekki þá verði hann settur í lægra þrepið. (Forseti hringir.) Telur ekki þingmaðurinn að það hefði komið sér betur en til dæmis afnám á tollum á sjónvörp (Forseti hringir.) og fleira sem þó hefur verið ákveðið að gera og hefur verið gert?