145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rúmlega helmingur af þeim ríkisstarfsmönnum sem missti starf á síðasta kjörtímabili var úr heilbrigðisgeiranum. Eins og ég nefndi fjölgaði hins vegar hjá eftirlitsstofnunum og í utanríkisþjónustunni. Það er þó alveg hárrétt hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að það er algjörlega fáránlegt að vera að opna þessa skrifstofu í Strassborg, fullkomlega fáránlegt. (KLM: Af hverju ertu þá að leggja þetta til?) Ef hv. þingmaður vill skamma mig fyrir eitthvað þá skal hann bara skamma mig fyrir það og ég tek það og er sammála hv. þingmanni. Hvað varðar húsameistarann er það sameining ákveðinna stofnanna, það er ekki ný stofnun, það er nafnabreyting og það er stofnun sem er til staðar og er ekki fjölgun á störfum eða umfangi. (Gripið fram í.)— Nei, nei, það tekur ekkert meiri pening. Þetta er fyrst og fremst nafnabreyting og ágætisnafn.

Hins vegar veit hv. þingmaður að lífeyririnn er 27 milljörðum hærri á ári núna miðað við árið sem þessi ríkisstjórn tók við. Það er ekki hægt að gera lítið úr því, virðulegi forseti. Ég hef ekki heyrt neinn gera það nema hv. stjórnarandstæðinga. 27 milljarðar (Forseti hringir.) eru mikið. Það er búið að hækka framlögin til (Forseti hringir.) heilbrigðismála um 23 milljarða. Samanlagt eru þetta 50 (Forseti hringir.) milljarðar. Það má gera betur, en ekki gera lítið úr þessu, virðulegi forseti.