145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Mig langar að spyrja aðeins út í safnliðina og vinnubrögðin. Við erum farin að sjá safnliðina í auknum mæli aftur í fjárlaganefnd — þeir voru færðir yfir til ráðuneytanna sem ég held að hafi verið gott skref. Eftir að safnliðirnir fóru í ráðuneytin hafa aðrir völdin þó að ferlið eigi að vera gagnsætt og þar fram eftir götunum. En svo að ég nefni dæmi þá féllu skáldahúsin þrjú á Akureyri einhvern veginn á milli skips og bryggju og í dag styrkir ríkið Nonnahús, Davíðshús og Sigurhæðir ekki um eina einustu krónu.

Þá velti ég fyrir mér: Hvað geta þingmenn gert? Ég er ekki fylgjandi því að við séum að deila út fjármunum, en hvernig tryggjum við jafnræði þegar liðirnir eru komnir inn í ráðuneytin? Ég held að við séum sammála um að við viljum hafa safnliðina þar, (Forseti hringir.) en á sama tíma viljum við hafa eitthvað um það að segja ef okkur finnst skiptingin ósanngjörn.