145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vitaskuld er það rétt hjá hv. þingmanni að niðurstaða fjárlaga og þessarar umræðu verður alltaf á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar. Það skiptir samt máli að það komi fram að aldraðir og öryrkjar eigi málsvara á þessu þingi. Það skiptir máli að það komi fram að Landspítalinn hefur líka málsvara á þessu þingi.

Það sem mér finnst hafa skipt máli síðustu daga er að búið er að hrekja margt af því sem hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa verið að segja, eins og hv. þm. Karl Garðarsson (Gripið fram í.) sem hélt því fram að hér væri um að ræða stórkostlegar aukningar síðustu árin í tíð þessarar ríkisstjórnar til (Gripið fram í.) Landspítalans þegar fram hefur komið (Gripið fram í.) opinberlega (Gripið fram í.) í fjölmiðlum að það er allt saman vitleysa. Það blasir við að það vantar (Gripið fram í.) 2,9 milljarða til þess að halda í horfinu hvað rekstur Landspítalans varðar frá síðasta ári. Við þær aðstæður finnst mér (Forseti hringir.) hálfaumkunarvert af hv. þingmönnum stjórnarliðsins að kvarta (Forseti hringir.) undan því að menn reyni að standa í ístaðinu og leiða þá til betri vera þó að sumir þeirra, eins og fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, séu orðnir ansi daufir til augnanna í kvöld. [Hlátur í þingsal.]