145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara svo að við nálgumst aðeins Ríkisútvarpið þá er það alveg rétt að ég gegndi embætti menntamálaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Ég gerði það ítrekað að umtalsefni í þessum sal, eins og hv. þingmaður man kannski, að mjög mikilvægt væri að skýra ábyrgðina í kringum Ríkisútvarpið. Það var eitt af því sem reynt var að gera með nýjum lögum um Ríkisútvarpið þegar hér var þingkjörin (Gripið fram í.) stjórn af hálfu Ríkisútvarpsins og aðkoma menntamálaráðherra fólst í þjónustusamningi við stofnunina. Gerð var tilraun til þess til að skýra þessa ábyrgðarkeðju.

Dreifikerfið er ákveðið að kaupa af stjórn og stjórnendum Ríkisútvarpsins. Aðkoma menntamálaráðherra er þar með ákveðnum hætti sem nú hefur verið gerð ákveðin grein fyrir og ég hef ekki mikinn tíma til að fara yfir. Það er eitt af því sem ég nefndi hér áðan að ég hefði viljað sjá, vissulega. Þá voru lagðar fram tölur sem áttu að standast, þær hafa ekki staðist. Það er ábyrgðarhluti, vissulega, bæði stjórnar og annarra. Ég tek undir það að mjög mikilvægt er (Forseti hringir.) að sú ábyrgð sé skýr.

Ég verð að nýta síðara andsvar mitt til að ræða aðeins skatteftirlitið og arðgreiðslur.