145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vildi spyrja hv. þingmann í framhaldi af því sem hún rakti hér og benti réttilega á, sem auðvitað styður við röksemdir fyrir því að gera vel við lífeyrisþega og gæta þess að þeir séu aldrei lakar settir en sem nemur lægsti launum. Eins og hún rakti hafa þeir ekki sömu forsendur til að bæta við sig vinnu og aðrir og hafa ekki val um vinnu en það er líka það að athuga að örorkulífeyrisþegar búa við þær tekjur sem örorkulífeyrir skapar þeim um lengri tíma á starfsævinni, ekki einungis eftir að starfsævinni lýkur eins og í tilviki ellilífeyrisþega.

Þegar menn eru að tala um hvata, eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði um í morgun, þá er ekki bara um svipur að ræða heldur líka alls konar stuðningsáhrif sem fjárhæð lífeyris skapar fyrir þá sem þurfa á honum að halda. Ég vildi spyrja hv. þingmann í framhaldi af sem hún rakti um aðstæður lífeyrisþega og það fólk sem við þekkjum bæði sem lifir við þessi kröppu kjör hvernig það horfir við henni ef það verður þannig að það verði á nýjan leik innleitt misvægi á milli lágmarkslauna og bóta eins og var hér á árunum fram að 2007 þegar við í Samfylkingunni fórum í ríkisstjórn og leiðréttum það bil. (Forseti hringir.) Það bil hafði í för með sér mikið tjón og mikinn kostnað. Hvaða áhrif telur hún að það bil hafi ef það verður aftur að veruleika?