145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fer ekkert ofan af því að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja hafa ekki hækkað eins og launaþróun á vinnumarkaði. Mig minnir að meðaltal launaþróunar á vinnumarkaði undanfarið sé 14,1%. Elli- og örorkulífeyrisþegar ná ekki þeirri hækkun. Ég tel að það þurfi að gera betur. Við getum endalaust staðið hér og teygt fram og til baka hvað 3,6% á síðasta ári og 3% núna 1. janúar þýða í krónum. Þetta eru nokkrir þúsundkallar og ekki til að hrópa húrra fyrir. Ég held að það hafi komið fram í umræðu áðan að óskertar örorkubætur eftir skatt frá maí 2013 hafi hækkað úr 162 þúsundum í 172 þúsund. Er það eitthvað til að hrópa húrra fyrir og vera að flagga hér?

Ég held að veruleikinn sé sá að kjör þessa fólks eru okkur sem samfélags til skammar hvað sem við reynum að segja í þeim efnum og bera saman við það sem fyrri ríkisstjórn gerði við allt, allt aðrar aðstæður þegar landið var algerlega á hliðinni. Þá var forgangsverkefni þeirrar ríkisstjórnar að grunnlífeyrir yrði ekki skertur og það átti að hækka þessar bætur myndarlega þegar betur áraði sem allt stefndi í en síðan kom þessi vonda hægri ríkisstjórn og sneri algerlega við í þeim efnum og ætlar ekki að bæta kjör eldri borgara og öryrkja.