145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins varðandi aldraða og öryrkja: Prósentuhækkanir á sáralágar bætur eru auðvitað í krónum talið mjög lítill peningur. Menn borða ekki prósentur, hvorki í þessum hópum né við hér á Alþingi.

Ég kom vissulega inn á það að ríkið væri búið að afsala sér miklum tekjum. Það liggja fyrir upplýsingar um að um 140 milljarða meiri tekjur séu í ríkissjóði nú en árið 2013 og aukin útgjöld. Hver væri tekjuafgangur ríkissjóðs í dag ef ekki væri arður af Landsbankanum, sem dæmi, og menn þyrftu kannski að treysta á einhverja óreglulega liði? Það er nú farið að hríslast um mann hvað verði eftir af þessum tekjuafgangi.

Tekjustofnar hafa vissulega breikkað. Við horfum fram á miklar gjaldeyristekjur vegna aukinnar ferðaþjónustu. Er að treysta á það til lengri tíma litið? Er það eitthvað í hendi?

Nú eru menn að afsala sér áfram tekjum og nýta ekki þessa uppsveiflu til hagsbóta fyrir innviðauppbyggingu. Þegar við förum aftur niður, hvað á þá að gera? Hvað ætlar ríkissjóður þá að gera, þegar búið er að skera niður ýmsa tekjustofna sem hefði verið gott að hafa þegar hagvöxtur mundi minnka og sveiflan væri aftur niður á við? Allt sem fer upp kemur niður að lokum. Menn ættu að vita það.