145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek eftir að stjórnarliðar tala ítrekað eins og hér hafi orðið einhver kúvending á efnahagslífinu þegar ný ríkisstjórn tók við, en nú er það þannig að á árinu 2013 náðu menn að snúa þróuninni við og náðu að skila svo að segja hallalausum rekstri. Telur hv. þingmaður að ef sú ríkisstjórn sem þá sat hefði setið út árið hefði niðurstaðan orðið miklu verri? Eða erum við ekki að tala um það að það skiptir þannig séð ekki öllu máli fyrir rekstur ríkisins hverjir sitja í sætunum fyrir aftan okkur heldur eru svo margir utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif, ferðamannastraumurinn, makríllinn, hrávöruverð þess vegna upp á verðbólgustig og annað? Mér finnst stundum talað eins og það hafi verið einhver gríðarleg himnasending sem datt af himni ofan, þessi ríkisstjórn sem tók við árið 2013 og að hér væri allt í kaldakoli ef hún hefði ekki tekið við. Skil ég þennan málflutning rétt?