145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það verður hlustað grannt eftir því hvernig hv. þingmaður greiðir atkvæði sitt í þessu máli ef ný tillaga kemur fram sem ég reikna fastlega með. Hv. þingmaður verður líka að svara því hvers vegna þessi ríkisstjórn, sem hann talar um að hafi verið himnasending, sker niður gagnvart heilbrigðismálum og ýmsum í velferðargeiranum en forgangsraðar alltaf í þágu þeirra ríku og sterku og útgerðarauðvaldsins og hefur létt sköttum af þeim sem mest hafa og létt af veiðigjöldum, auðlegðarskatti og orkuskatti. Allt þetta telur. Ef það er ekki hægt við þessar aðstæður, þegar efnahagsbati er þó þetta mikill, að bæta kjör þeirra sem hafa dregist aftur úr, hvenær í ósköpunum er þá hægt að bæta kjör þessa fólks? Því er alltaf ýtt á undan sér. Seðlabankastjóri varaði við því á sínum tíma að lægstu laun (Forseti hringir.) í landinu yrðu hækkuð eins og verið var að berjast fyrir. Maður spyr sig: Af hverju eru þessir hópar alltaf settir í aftursætið?