145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og áður þegar við sjáum hugrakka þingmenn ríkisstjórnarflokkanna koma í ræðustól Alþingis og flytja ræðu ber að þakka fyrir það. Jón Gunnarsson er hugrakkur maður, enda vissi ég það, kemur í ræðustól og ræðir þessi mál þó að ég sé ekki efnislega sammála mörgu af því sem hann segir og vildi hafa meira en tvær mínútur til að bregðast við ýmsu sem þar kom fram. En það ber að þakka fyrir loksins þegar menn flytja ræðu. Ég trúi ekki öðru en að aðrir stjórnarþingmenn sem eru í salnum komi nú í ræðustól og ræði þessi mál líka við okkur. Það eru akkúrat svona samræður sem við þurfum að eiga. Við þurfum að tala okkur að niðurstöðu, við þurfum að skiptast á skoðunum og greina vandann og ég ætla að gera það með spurningum til hv. þingmanns.

Þingmaðurinn las upp úr minnisblöðum eða ábendingum eða hvað það er sem allir stjórnarþingmenn eru að lesa upp úr um hækkanir til aldraðra og öryrkja á kjörtímabilinu. Til að stytta hv. þingmanni svarið ætla ég að segja að það fylgir með sem var gert 2013 sem Bjarni Benediktsson lofaði að gera strax eftir kosningar með tekjuskerðingar og fleira sem þó er inni í þeirri tölu sem ég nefni. Staðreyndin er þessi og ég spyr hv. þm. Jón Gunnarsson: Er hann stoltur af því og telur hann það fullnægjandi að á kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar sem hefur nú setið tvö og hálft ár hafa bætur aldraðra og öryrkja hækkað um 10 þús. kr. eftir skatt? Það er það sem aldraðir og öryrkjar hafa til ráðstöfunar í hverjum mánuði í tíð þessarar ríkisstjórnar. 1. janúar síðastliðinn var hækkunin 4 þús. kr. eftir skatt. Telur hv. þingmaður að þarna sé hann að gera mun betur eins og hann var að tala um en gert hefur verið?

Virðulegi forseti. Má ég taka eitt dæmi um 4 þús. kr.? Ég tel að þær hafi horfið með (Forseti hringir.) matarskattshækkuninni. Ég tel að þær hafi algjörlega horfið þar og að hækkunin um þessar 4 þús. kr. til aldraðra og öryrkja 1. janúar síðastliðinn hafi í raun og veru verið horfin sama dag. Við skulum líka hafa í huga, virðulegi forseti, að í þjóðfélaginu (Forseti hringir.) komu ýmsar hækkanir, m.a. frá opinberum stofnunum. Þetta hvarf eins og dögg fyrir sólu.