145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um það fyrst og fremst að ræða, eins og ég skil málið, að taka þurfi afstöðu til þess hvort hagkvæmara sé fyrir ríkið að selja þessa lóð og að söluandvirðið sé það hátt og skili það miklu að það dugi til að finna Þjóðskjalasafninu nýjan stað og koma því fyrir í nýrri byggingu. Ef slíkt lægi fyrir og hægt væri að koma Þjóðskjalasafninu í jafnvel betra húsnæði en það er í nú þegar væri auðvitað rétt að horfa til þess og fráleitt annað en að hafa augun opin fyrir slíku. Ég gef mér að eitt af því sem hafi leitt þessa umræðu fram sé að við vitum að enn er nokkuð langt í land með að búið sé að ráðast í allar þær viðgerðir og endurbætur á húsnæðinu sem Þjóðskjalasafnið er í núna, að menn horfi til þess kostnaðar, sem þarf að taka tillit til líka í þessari mynd. En enn og aftur: Menn eiga að fara varlega með eina af lykilstofnunum þjóðarinnar sem er Þjóðskjalasafnið. Þar á að gera allt af mikilli yfirvegun. Ég lít svo á að þetta heimildarákvæði verði að sjálfsögðu ekki nýtt nema það uppfylli þau skilyrði sem ég var að lýsa hér áðan, að það sé hagkvæmara fyrir ríkissjóð að gefnu tilliti til þess að þá sé búið að mæta allri húsnæðisþörf Þjóðskjalasafnsins ef það á að fara úr því húsnæði sem það er í núna. Ég tel málið liggja alveg ljóst fyrir. Ég held að ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af því. Ef til kæmi að þessari heimild væri beitt væri það á grundvelli þeirra raka sem ég hef lýst. Annars væri það varla hægt.

Ég ítreka, af því að hv. þingmaður gerði það aftur að umtalsefni í andsvari sínu, að það er svo að forusta fjárlaganefndar hefur þetta mikilvæga verkefni og hlýtur að sinna því eftir bestu getu. Það er ekki þar með sagt að við séum alltaf öll alveg sammála öllu. En það ber að horfa til þeirrar ábyrgðar sem sérstaklega hvílir á forustumönnum þeirrar nefndar.