145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar sveitarfélögin komu á okkar fund í fjárlaganefnd þá töluðum við um skiptingu tekna. Sveitarfélögin eru ósátt við sinn hlut eða telja að þau eigi að fá meira af tekjum ríkisins. Þau benda meðal annars á, sum hver, að þeim finnist óréttlátt að greiða fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Einhverjir gerðu kröfur um að fá virðisaukaskatt endurgreiddan vegna framkvæmda og kaupa á vörum og þjónustu af því að þau geta ekki nýtt sér innskattsheimildir, að fá aukna hlutdeild í skattstofnum eins og tryggingagjaldi, gistináttagjaldi og gjöldum af umferð. Þetta er allt það sem við höfum heyrt vegna þess að bílarnir keyra í sveitarfélögunum og það er slit á götum og annað þar fram eftir götunum. Þá gera þau athugasemdir, eins og fyrirtækin gera, um að tryggingagjaldið lækki ekki því að sveitarfélögin borga tryggingagjald. Og eins með fjármagnstekjuskattinn, þá þarf ríkið að borga fjármagnstekjuskatt en bara í eigin vasa. Einnig vilja þau fá hlutdeild í tekjum af fjármagnstekjuskatti, þ.e. þar sem einstaklingar eru að borga fjármagnstekjuskatt. Þeir aðilar eru kannski að þiggja þjónustu sveitarfélaga en borga ekki útsvar.

Mér finnst þessar kröfur sveitarfélaganna eiga rétt á sér. Mér finnst tími kominn til að skoða þetta. Ríkissjóður er að rétta úr kútnum en það er víða erfitt hjá sveitarfélögunum. Þar fyrir utan hafa þau jafnvel verið að borga með ákveðnum verkefnum sem ríkið ber ábyrgð á eins og rekstri hjúkrunarheimila. Hvað segir hv. þingmaður um þetta?