145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar maður kemur hérna upp og ræðir við forseta fær maður aldrei nein viðbrögð. Það er svolítið undarlegt og örugglega kómískt að fylgjast með þessu. Það er eins og við séum að tala við einhvern forseta úti í bæ af því að við fáum aldrei nein svör.

Þetta er ekki flókið. Við erum að spyrja að tvennu: Í fyrsta lagi hvað verður þessi fundur lengi? Í öðru lagi óskum við eftir því að hingað komi ráðherrar þeirra þriggja stóru málaflokka sem við höfum lagt áherslu á í umræðunni. Við höfum ekki fengið nein viðbrögð við því hvort á þá verði kallað, hvort þeir komi hingað eða hvort þeir ætli að liðka fyrir umræðunni með því að eiga samtal við okkur um þessa mikilvægu málaflokka, þ.e. fjármögnun á heilbrigðiskerfinu sem krefst gríðarlega mikilla fjármuna til viðbótar við það sem lagt er til ef við ætlum að halda áfram að eiga heilbrigðiskerfi í fremstu röð og síðan eru það kjaramál eldri borgara og öryrkja. Því er haldið fram að þeir séu búnir að fá nóg meðan við teljum svo ekki vera, þeir halda ekki einu sinni í við lægstu laun í landinu. Ég vil fá svör við þessum tveimur spurningum.