145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar rifja upp samtal sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra átti við formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Pál Árnason, hér í gærmorgun þar sem var verið að tala um kjör aldraðra og öryrkja. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vildi minna á að öryrkjum væri að fjölga hér á landi og það þyrftu að vera einhverjir hvatar til þess að öryrkjarnir hættu að vera öryrkjar. Hann orðaði það ekki nákvæmlega þannig en þannig skildi maður hann. Hann nefndi að í þessum hópi væru ungir menn sem hefðu flosnað upp úr skóla og ekki náð að fóta sig og væru orðnir öryrkjar.

Ég hef hugsað mikið um þessi orð hæstv. ráðherra og er mjög undrandi á þeim því að með þeim sýnir hann mikið skilningsleysi á aðstöðu öryrkja og aldraðra. Hann virtist vera að benda á þetta til að rökstyðja að þessi hópur, aldraðir og öryrkjar, ætti að vera fátækasti hópurinn í samfélaginu. Það væri hægt að réttlæta það með þessu. Það er óskiljanlegt hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu. Jafnvel þó að hæstv. ráðherra hafi hugsað þetta er mjög skrýtið að segja það upphátt hér í beinni útsendingu og að hægt sé að finna þessa afsökun fyrir því að ekki eigi að láta lífeyri hjá öldruðum og öryrkjum hækka í takt við lægstu laun.

Það sem gert er þegar verið er að reikna út prósentur sem kjörin eiga að hækka um um áramótin, þ.e. 9,7%, þá er miðað við launaþróun sem er reiknuð þannig út að launavísitala er fundin út og launaskrið dregið frá svo að aldraðir og öryrkjar njóti nú örugglega ekki þess kaupmáttar sem launaskrið í landinu veitir öðrum stéttum. Þeir mega ekki njóta launaskriðs og þeir mega heldur ekki njóta sérstakra kjara sem þeir sem eru á lægstu launum njóta nú um stundir. Þetta er mjög óréttlátt. Við höfum farið yfir það hér aftur og aftur og talað fyrir daufum eyrum, því miður. Ísköld lagahyggjan er látin ráða í þessum málum. Við erum afar ósátt við það.

Þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fór að tala um ungu mennina sem höfðu flosnað upp úr skóla og ekki getað fótað sig þá kom auðvitað upp í hugann fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla þar sem 25 ára og eldri er gert erfitt fyrir að sækja bóknám kjósi þeir að fara aftur í skóla. Það væri miklu nær að hæstv. ríkisstjórn færi út í það að skipuleggja aðgerðir til þess að styðja við þann hóp sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra telur mikilvægt að komist ekki á betri stað en þeir sem eru lægst launaðir í samfélaginu og vill því halda öllum öðrum sem eru öryrkjar eða aldraðir þar fyrir neðan. Auðvitað væri betra að opna framhaldsskólana en ekki loka þeim eins og hæstv. ríkisstjórn er að gera.

Maður veit ekki eiginlega hvar er hægt að byrja að hneykslast á þessari afstöðu hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Maður var sleginn yfir þeirri hlið sem hæstv. ráðherra sýndi á sér og á þeim rökum sem er beitt til að halda öldruðum og öryrkjum á versta stað af öllum í samfélaginu.

Að þessu sögðu langar mig í lok ræðu minnar að minnast á mál sem lítið hefur verið rætt um í þessari umræðu en er stórmál. Það er áætlun um losun hafta og þeir fjármunir sem þurfa að birtast í reikningum ríkisins. Það er vitað að einhverjir samningar eru komnir og búið að samþykkja. Í texta með fjárlagafrumvarpinu er reyndar enn þá talað um stöðugleikaskatt þó að ákveðið hafi verið að fara samningaleiðina. Það tók mjög langan tíma að finna út úr þessu. Menn hafa slegið á það að tafirnar og ósamkomulagið á milli stjórnarflokkanna um hvaða leið ætti að fara hafi kostað okkur vel á annað hundrað milljarða því að staðan sem við erum í er dýr og tíminn er dýrmætur. Menn hafa slegið á að þessar tafir og ákvörðun um hvaða leið eigi að fara hafi kostað okkur á annað hundrað milljarða.

Það er augljóst að það hlýtur eitthvað að koma á milli umræðna, einhverjar tillögur og einhverjar tölur yfir þessa peninga og hvernig á að verja þeim á árinu 2016. Í textanum í fjárlagafrumvarpinu, sem er skrifaður um mitt ár, er talað um að greiða niður skuldabréf til Seðlabankans. Það er skynsamlegt að gera það en annað er ekki talað um. Það er talað um að 170 milljarðar gangi inn á árið 2016 en þegar við vorum að ræða þessi mál í fjárlaganefnd sögðu menn að það væri ekki ljóst hvernig þetta mundi leggjast og það væri ekki vitað hvort við mundum taka þetta inn í fjáraukalögin eða inn í fjárlögin. Það er orðið ljóst núna að við tökum þetta ekki inn í fjáraukalögin því að það er búið að loka þar nefndarálitum og tillögum. Við hljótum að taka þetta stóra mál, þar sem að minnsta kosti 379 milljarðar eru undir og knappur tími til jóla, inn í fjárlaganefnd og fara vandlega yfir það og bera það síðan inn í þingsal til umræðu. Það verður auðvitað ekki hrist fram úr erminni. Þetta er eitt af stóru málunum sem við þurfum að taka á milli umræðna og fjárlaganefnd þarf að einbeita sér að.

Frú forseti. Landspítalinn hefur verið til umræðu líka. Við höfum kallað eftir að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað til þess að taka þátt í umræðunni. Við þurfum að fá skýringar á því af hverju menn sætta sig við það og af hverju þeim finnst það sjálfsagt að fjölgun sjúklinga fylgi fjármunir á heilsugæslustöðvum sem eru einkareknar og læknastöðvum sem eru einkareknar út um bæinn en þegar kemur að opinbera kerfinu þá eigi opinberar heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanirnar og Landspítalinn og sjúkrahúsin að skera niður til þess að mæta kostnaði vegna fjölda sjúklinga. Það hefur enginn útskýrt það fyrir okkur hvernig hægt er að rökstyðja það. Af hverju er þetta svona? Af hverju hafa menn skilning á því að fjármunir þurfi að fylgja fleiri sjúklingum á stöðvum sem eru einkareknar en loka alveg öllum skilningarvitum þegar hið sama er uppi á opinberum stofnunum? Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki svarað þessu. Hann hefur ekki látið sjá sig hér þegar hæstv. forseti hefur kallað eftir honum hingað í hús fyrir hönd okkar þingmanna. Það eru sannarlega vonbrigði og ástæða til að kvarta yfir því.