145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það er akkúrat það sem við stöndum frammi fyrir og hefur verið bent á hér að það er ótrúlega margt sem við þurfum að taka á milli umræðna í hv. fjárlaganefnd sem varðar mjög stórar tölur.

Þegar maður les nefndarálit meiri hlutans er talað um á forsíðu að nokkuð sé í land með að hefja niðurgreiðslu skulda og vaxtakostnaðurinn sé áfram þriðji útgjaldamesti málaflokkurinn á eftir heilbrigðismálum og almannatryggingum. Það vakti athygli mína að bæði í ríkisfjármálaáætlun og eins í meirihlutaálitinu þá lítur ekki beinlínis út fyrir að ríkisstjórnin sjái sér fært að greiða niður skuldir. Svo stöndum við frammi fyrir því að vera með óreglulegar tekjur sem eru í raun ekki til þess fallnar að bæta grunnrekstur ríkisins sem ég hef miklar áhyggjur af. Við höfum rætt það í fjárlaganefnd að þetta er eitthvað sem við þurfum að velta verulega fyrir okkur, undirliggjandi ríkisrekstri, því að þrátt fyrir stöðugleikaframlag eru jú áfram óreglulegar tekjur.

Svo við snúum okkur að velferðarmálunum. Er þetta ekki bara hugmyndafræðin? Er það ekki klárlega af pólitískum ástæðum sem settar eru fram, þrátt fyrir hagkvæmni eða ekki hagkvæmni í rekstrinum, að dregið er úr hinni eiginlegu samneyslu, þ.e. að ríkið reki ekki sjálft sína heilbrigðisþjónustu heldur sé hún færð yfir á hendur einkaaðila? (Forseti hringir.) Þarna er enn og aftur verið að setja eitthvað af stað í gegnum fjárlög í stað þess að það sé rætt pólitískt í þingsal.