145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. „Ég skildi að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“ Svo orti skáld. Með þessi orð að veganesti í yfir eitt hundrað ár hafa íslenskir málfræðingar og orðhönnuðir fundið orð yfir flest það sem komið hefur fram í fræðiheiminum. Það er því von að landinn vakni upp við furðu þegar ágætur tölvunarfræðingur setur fram spurnarfullyrðingu um að íslenskan muni deyja út. Vissulega er það svo að í heimi tölvu og fjarskipta er íslenska ekki móðurmálið. Þó hafa málfræðingar notað tölvutækni í yfir 40 ár til sinna rannsókna. Svo virðist þó að enskan sé og verði lingua franca í tölvuheimum. Eins og skáldið lét Lauga segja í Silfurtúnglinu:

„Við Íslendingar erum lítil og fátæk þjóð, og allir útlendingar halda að við séum skrælingjar, og þessvegna hef ég alltaf sagt: ef við getum einhverja ögn af einhverju tagi, alveg sama hvað lítið það er, þá eigum við að gera það í augsýn als heimsins.“

Íslenskar bókmenntir verða skrifaðar á íslensku um ókomna tíð og aukinheldur hafa orðið framfarir í bókmenntum. Það er ekki lengur svo að í bókmenntum séu bændur að slást og að Njáll verði brenndur í sögulok. Það er sennilega vegna þess að á Íslandi fellur töluvert til af efni undir glæpasögur, hin íslenska tilvist og hinn íslenski veruleiki sér fyrir því. Það sem verður kannski íslenskri þjóðtungu til bjargar er að það eru komnir þýðendur á önnur mál. Nám í íslensku fyrir erlenda stúdenta hefur náð miklum árangri þannig að þeir geta þýtt íslensk skáldverk á aðrar tungur. Þessir nemendur sem segja eins og skáldið, ég býð þér dús, mín elskulega þjóð, hafa lyft grettistaki til að gera íslenskar bókmenntir að heimsbókmenntum. (Forseti hringir.) Ég vona að við stöndum vörð um íslenska tungu á ókomnum árum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.


Efnisorð er vísa í ræðuna