145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Umræða um fjárlög er mikilvæg og að mínu mati skemmtileg því að hún snýst um það hvernig samfélag við ætlum að skapa okkur hér á landi. Þess vegna er eðlilegt að slík umræða sé löng og efnisrík, sér í lagi þegar í gegnum fjárlög er verið að taka stefnumarkandi pólitískar ákvarðanir um breytingar á samfélaginu sem ekki hafa verið ræddar sérstaklega á Alþingi.

Mig langar að nefna í því sambandi málefni RÚV, málefni framhaldsskólans og heilbrigðiskerfið. Þegar fjárlögin eru helsti vettvangurinn til að ræða þessi mál og hvernig þeim verður fyrir komið til næstu framtíðar er eðlilegt að umræðan verði löng. Mér finnst sorglegt að í rauninni sé verið að drepa hinni efnislegu umræðu á dreif með því að gera sem mest úr lengd umræðu, fjölda ræðna eða öðru slíku, að gera það að einhverju aðalatriði. Efnisatriði umræðunnar skipta máli.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefur talað nokkrum sinnum um það hversu góðar og gagnlegar ræður hafa verið fluttar á næturnar. Það eru þúsundir sem fylgjast með umræðunni úr Alþingi hverju sinni og þetta fólk vill fylgjast með því hvaða ákvarðanir er verið að taka um það hvert íslenskt samfélag er að fara. Fólk er að veita okkur aðhald með bréfaskriftum og fleiru og þess vegna eiga umræðurnar að (Forseti hringir.) fara fram í dagsbirtu en ekki í skjóli nætur svo einmitt almenningur á Íslandi geti fylgst með umræðunni sem hér fer fram.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna