145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta mjög umhugsunarvert. Mér finnst mjög mikilvægt að taka þetta upp. Hv. þingmaður vísar í dæmin um framhaldsskólann þar sem sett var af það fyrirkomulag sem varð til í kringum 1970 þar sem skólarnir voru opnaðir. Það var ein af stórum byltingum þess tíma, að opna framhaldsskólana fyrir fólki sem af einhverjum sökum hafði farið út úr kerfinu og jafnvel orðið utanveltu en var að leita þangað inn aftur. Nú er þessu sama fólki vísað á aðrar lausnir, yfirleitt rándýrar einkalausnir, um að sækja sér menntun. Stórpólitískt mál, stefnumörkun sem aldrei fékk viðunandi umræðu. Við vorum að leitast við að gera það, stjórnarandstaðan á þeim tíma.

En eins og hv. þingmaður nefnir og kom fram í ræðu sem hún flutti og mér þótti merkilegt, eiginlega alveg stórmerkilegt, að eitt af þeim málum sem þarf að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í var að vinnuskjöl koma inn til fjárlaganefndar þar sem talað er opið um að til standi að bjóða nýjar heilsugæslustöðvar í Reykjavík út. Svo hverfur þetta úr vinnugögnunum, ekki vegna þess að ásetningurinn hafi horfið, það staðfesti hæstv. fjármálaráðherra í útvarpi, heldur vegna þess að ekki er talið æskilegt að það blandist inn í umræðuna. Eða er það ástæðan? Ég vil nýta mér þetta tækifæri, þar sem við eigum í orðaskiptum og hún á sæti í fjárlaganefnd, og spyrja hv. þingmann: Gerði stjórnarmeirihlutinn í fjárlaganefnd grein fyrir því að til stæði að (Forseti hringir.) bjóða út og einkavæða heilsugæslustöðvarnar eins og hæstv. fjármálaráðherra síðan fullyrti?