145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef reyndar ekkert út á fundarstjórn forseta að setja, en ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem er búinn að halda margar ræður um heilbrigðismál. Hann hefur óskað eftir að hæstv. heilbrigðisráðherra verði hér í salnum þótt ekki væri nema til að svara spurningum hv. þingmanns í andsvörum. Mér finnst það alveg með ólíkindum að ráðherrarnir sinni ekki þeirri skyldu sinni. Nei, þá sitja þeir frekar einhvers staðar á skrifstofum sínum og efna til þess ófriðar sem þeir hafa hér gert. Það verður þá að segja að undantekningar á því eru hæstv. menntamálaráðherra og velferðarráðherra sem komu hér í gær.

En af því að þingflokksformaður Framsóknarflokksins talaði um lengd umræðunnar, um 70–80 klukkustundir, og einnig um stjórnarandstöðuna, þá verð ég að geta þess að það hafa nokkrir þingmenn stjórnarinnar reynt að koma og verja gjörðir sínar, alla vega lesið stíla og sagt eitthvað um málið, þannig að þeir eiga nú (Forseti hringir.) sinn þátt í því. En mér þótti athyglisvert að horfa á myndband í gær (Forseti hringir.) þar sem fyrrverandi formaður þingflokks Framsóknarflokksins kom hér seint að kvöldi (Forseti hringir.) í umræðu um fjárlög fyrir árið 2013 og sagði að það væri réttur þingmanna að ræða fjárlög vel og lengi.