145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa við þessa umræðu um fjárlögin reifað ýmsa vankanta á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Mér finnst mikilvægt í byrjun að segja það sem ég hef komið að í fyrri tveimur ræðum mínum um efnið að það er óheppilegt að öll pólitísk álitamál renni saman í einu frumvarpi til fjárlaga. Á meðan mikilvægum lögbundnum verkefnum eins og að leggja fram samgönguáætlun eða áætlun um þróunarsamvinnu eða hvað það nú er, er ekki sinnt, er verið að taka inn pólitískar stefnumótandi ákvarðanir í fjárlagaumræðunni. Margir hafa furðað sig á því að þessi umræða hafi staðið lengi. Fólk þarf ekki að furða sig á því því að hér er í raun og veru þjappað saman öllum helstu pólitískum álitamálum sem við hefðum átt að vera að ræða í allt haust. Og ég vil og minn þingflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, gera alvarlegar athugasemdir við þetta vinnulag og segja það að eðlilegt er að þetta verði tekið til skoðunar því við getum ekki verið að þjappa pólitískum, risavöxnum álitamálum saman með þessum hætti. Það er hins vegar greinileg tilhneiging hjá þessari ríkisstjórn að gera það, væntanlega til að víkja sér undan erfiðri umræðu þar sem fólk er ekki reiðubúið að takast á og fá eðlilega þinglega meðferð á málum. Það er auðvitað auðveldara að safna þessu öllu saman í eitt skjal. En þá þýðir ekki að kveinka sér undan umræðunni eins og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa sumir hverjir gert.

Á þeim stutta tíma sem ég hef til reiðu finnst mér mikilvægast að nefna það sem við þingmenn Vinstri grænna teljum helsta ranglætið í fjárlagafrumvarpinu og það er í fyrsta lagi kjör lífeyrisþega sem standa nú hér fyrir utan enn einn daginn, herra forseti, enn einn daginn stendur þetta fólk hér fyrir utan og minnir á kjör sín. Eins og komið hefur fram í því sem ég hef sagt í umræðunni þá deilir engin um það að þessir hópar fá ákveðna prósentuhækkun. Stóra málið er af hverju sú prósentuhækkun er reiknuð. Það er erfitt trúi ég fyrir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að horfast í augu við þá staðreynd að stór hópur lífeyrisþega sér fram á að vera með nöturlegar ráðstöfunartekjur, tekjur upp á 180 þús. kr. eða svo, sem hækka um nokkur prósentustig þegar við vitum öll sem hér erum að það dugir ekki til að komast af á mánuði. Við verðum að taka þessa umræðu upp úr því fari að við séum að ræða prósentuhækkanir sem allar verða að haldast í takt heldur verðum við að horfa á það hvort kerfið sem við búum við sé réttlátt. Það dugir ekki að segja að allir fái prósentuhækkanir ef kerfið sem við byggjum á er ranglátt. Það er ranglátt að fólk sem ekki getur valið sér sitt hlutskipti hvort sem það eru öryrkjar eða aldraðir sitji uppi með það að vera dæmt til þess að fá ekki nægjanlegar ráðstöfunartekjur til að geta framfleytt sér. Það á við um stóra hópa meðal þessa fólks að vera dæmdir til þessarar lágu framfærslu. Það á líka við um hópa þeirra á meðal að þær tekjur sem þeir reyna að vinna sér inn aukalega skerðast áfram króna á móti krónu og þar höfum við talað sérstaklega um sérstöku framfærsluuppbótina.

Samfélög eru dæmd út frá því hvernig þau fara með sína viðkvæmustu hópa. Okkur hefur orðið tíðrætt hér um málefni barna eðlilega út frá nýliðnum atburðum. En við getum alveg tekið í þann hóp öryrkja og aldraða og hvernig við förum með okkar viðkvæmustu hópa. Það segir sitthvað um okkur sem samfélag. Hv. þingmenn meiri hlutans hafa tækifæri til að gera eitthvað í þessum málum. Við höfum lagt fram tillögu um kjarabætur handa þessum hópum í takt við það sem hefur gerst á hinum almenna vinnumarkaði þannig að tekjur þeirra verði sambærilegar við lægstu laun, þ.e. 300 þús. kr. á mánuði. Ég hef heyrt suma hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans lýsa vilja sínum í þá átt en viljann verður að sýna í verki og það væri mikilvægt að fá eitthvert slíkt merki frá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum stjórnarmeirihlutans nú þegar stefnir í lok þessarar umræðu.

Í öðru lagi langar mig að nefna Landspítalann sem eðlilega hefur verið hér til umræðu. Það er ekki brugðist við þeirri staðreynd að álag mun aukast á spítalann. Forustumenn spítalans hafa lagt fram gögn þar að lútandi sem eingöngu snúast um lýðfræðileg rök, aukið álag og breytta aldurssamsetningu í samfélaginu, sem sagt fleira eldra fólk sem er líklegra til að þurfa að nýta sér þjónustu spítalans. Einungis lýðfræðilegu rökin kalla á 1,7% aukningu í rekstri á umfangi spítalans. Það er heldur ekki brugðist til fulls við þeim kjarabótum sem hafa orðið innan spítalans og þar stendur yfir deila milli velferðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Ekki er heldur komið til móts við viðhaldsþörfina. Við í stjórnarandstöðunni erum sammála um að þarna eigi að forgangsraða, þarna eigi að setja aukna fjármuni og þar erum við sammála þjóðinni líka að ég tel. Þarna hafa hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar stjórnarmeirihlutans tækifæri til að gera eitthvað, til að samþykkja einhverjar af þeim tillögum sem hér liggja fyrir eða kynna sínar eigin.

Að lokum langar mig að nefna þriðja málið sem hefur kannski borið hvað hæst í málflutningi okkar og það er Ríkisútvarpið. Það mál vekur mér mikla furðu eftir að hæstv. menntamálaráðherra kynnti það í vor og lofaði því að horfið yrði frá lækkun útvarpsgjaldsins sem lækkaði á síðasta ári en þá var ákveðið að það ætti að lækka aftur með þeim fjárlögum sem við samþykkjum hér. Hæstv. ráðherra kom svo fram í vor og sagðist telja það óráð að halda áfram að lækka gjaldið, færði fyrir því ýmis rök þá og hefur í þessari umræðu mætt og tekið þátt í umræðunni og fært fyrir því áfram ágætisrök. Þau snúast til að mynda um að þegar hefur verið hagrætt mjög í rekstri Ríkisútvarpsins. Hæstv. ráðherra talaði um 5% hagræðingu. Hann benti líka á þá staðreynd að lóðin hefur verið seld til að bæta skuldastöðu útvarpsins en bætti líka við og útskýrði það hvernig kostnaður við dreifikerfið hefði reynst meiri en fyrirsjáanlegt hefði verið þó að einnig sé ljóst að erfitt var fyrir stjórn Ríkisútvarpsins á þeim tíma að taka einhverja aðra valkosti þegar henni var gert að færa útsendingu sína yfir á stafrænt form. Hún fékk þá tiltekinn fjölda tilboða í það verk þannig að það var kannski enginn augljós valkostur á þeim tíma en það er ljóst að sá kostnaður hefur orðið meiri.

Ríkisútvarpið hefur lagt fram framtíðarsýn, stefnumótun sem hefur verið í takt við það, eða ég heyri alla vega ekki betur, sem hv. þingmenn hafa gert að umtalsefni, t.d. um að þjónusta betur hinar dreifðu byggðir og framleiða og bæta efni fyrir börn og í því býr auðvitað gríðarlega mikið menningarhlutverk. Eigi að síður virðist hæstv. ráðherra af einhverri meinbægni ekki fá frumvarp sitt afgreitt úr ríkisstjórn. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að einhverjir innan stjórnarmeirihlutans séu einfaldlega á móti hugmyndinni um almannaútvarp. Við áttum ágæta umræða í gær um almannaútvarpið og ég varð svo sem ekki vör við annað en að þeir hv. þingmenn stjórnarliðsins sem tóku þátt í þeirri umræðu væru hlynntir hugmyndinni um almannaútvarp. Hæstv. ráðherra ítrekaði það í umræðunni. En hann er skilinn eftir með allt niður um sig og ekki von á neinum úrbótum eftir því sem fram hefur komið.

Ég segi það líka í þessu máli að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans hafa tækifæri hér og nú til að greiða úr þessu og láta af þessari einkennilegu meinbægni í garð almannaþjónustumiðilsins sem enginn treystir sér í raun og veru almennilega til að útskýra.

Þessi þrjú mál hefur borið hvað hæst. Það væri ósk mín að við fengjum undirtektir við málflutningi okkar. Þetta eru mál sem varða annars vegar réttlæti, þ.e. hvernig við skiptum gæðunum, hvernig við teljum að eigi að búa að þeim hópum sem eru viðkvæmastir í samfélaginu og hins vegar eru þetta mál sem varða gríðarlega mikilvæga innviði, þ.e. Landspítalann, og að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því hlutverki og þeim kröfum sem við leggjum á það. Í þriðja lagi er þetta mál sem varðar stærstu menningarstofnun þjóðarinnar. Það eru engin smámál sem hér er undir. Þau eru misútlátamikil fyrir stjórnarmeirihlutann en ég vil segja það að lokum, herra forseti, að mér þykir það dapurlegt að hafa ekki fengið neinar vísbendingar í þessari umræðu um að menn vilji hlusta eftir þessum breytingartillögum né öðrum þeim breytingartillögum sem minni hlutinn hefur fært fram og rökstutt með ágætum hætti í þessari umræðu.