145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í ljósi orða Kristjáns Möllers langar mig að lesa upp bréf sem barst velferðarnefnd í nóvember 2011:

„Þann 1. janúar 2009 hefðu lífeyrisgreiðslur átt að hækka um 19,9%, en einungis lítill hluti lífeyrisþega fékk þá hækkun, aðrir fengu 9,6%. Þann 1. júlí 2009 voru innleiddar í lög auknar skerðingar vegna tekna og lífeyrissjóðsgreiðslur tóku að skerða grunnlífeyri í fyrsta sinn í sögunni. Þann 1. janúar 2010 voru bætur frystar en hefðu átt að hækka um 10%. Enn hefðu bætur átt að hækka 1. janúar 2011 um 7% til viðbótar, en þrátt fyrir það voru þær frystar annað árið í röð, með þeirri einni undantekningu að bótaflokkurinn „sérstök framfærsluuppbót“ var hækkaður um 2,5%. Í júní 2011 hækkuðu bætur um 8,1% í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA. Sú hækkun náði ekki að bæta upp áðurnefndar skerðingar. Með fjárlögum 2012 er ætlunin enn á ný að standa ekki við hækkun bóta samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar með því að hækka bætur einungis um 3,5%.“

Þetta er bréf Öryrkjabandalags Íslands til velferðarnefndar 28. nóvember 2011.