145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:37]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru einhver mikilvægustu lífsgæði sem hægt er að hugsa sér að búa við það öryggi að geta treyst á gott og öflugt heilbrigðiskerfi og við Íslendingar erum til allrar hamingju vön því að geta treyst heilbrigðiskerfinu okkar og starfsfólkinu þar.

Eftir þann erfiða niðurskurð sem við höfum þurft að horfa upp á eftir hrun þá skiptir öllu máli að halda áfram að byggja þessar stofnanir upp og gera það hratt. Það er ekki nóg að halda í horfinu og bíða og vona að myglan hverfi eða við komumst að henni einhvern tíma seinna. Í þessari tillögu er ekki verið að biðja um að spítalinn sé gullhúðaður eða allt fært upp á einhvern heimsklassa. Við erum einfaldlega að leggja til að koma til móts við lágmarkstillögur stjórnenda spítalans sem ákveðið fyrsta skref í því að mjaka okkur upp af botninum sem aðrir þingmenn hafa minnst á um framlög okkar til heilbrigðismála þar sem við erum í næstneðsta sæti á lista OECD. Ég segi já.