145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þarna leggur stjórnarandstaðan til að bæta í þennan málaflokk, barnabætur. Það er mjög erfitt hjá ungum fjölskyldum í dag að stofna heimili og koma sér þaki yfir höfuðið þegar ríkisstjórnin skerðir barnabætur við 200 þús. kr., það eru líka skerðingar hjá Fæðingarorlofssjóði og í raun gerir ríkisstjórnin ekkert í því enn sem komið er að bæta möguleika ungs fólks til að koma sér þaki yfir höfuðið eða til að leigja á sanngjörnu verði. Það er algert lágmark að barnabætur skerðist ekki fyrr en að minnsta kosti til samræmis við það sem lágmarkslaun verða á næsta ári, 270 þús. kr. og út á það gengur tillaga okkar í stjórnarandstöðunni. En stuðningur við ungt fólk sem er að koma sér upp heimili, barnafólk, er ekki mikill af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það er ekkert skrýtið að margt ungt fólk sé að flýja land.