145. löggjafarþing — 56. fundur,  17. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er beðið um atkvæðaskýringar vegna liðar 5.3 í 6. gr. sem snýr að því að selja 30% hlut í Landsbankanum. Ég tek eftir því að menn gera ekki miklar athugasemdir við lið 5.2 um að selja Íslandsbanka.

Í mínum huga er alveg skýrt að það er algert glapræði fyrir okkur Íslendinga að binda yfir 400 milljarða kr. í eignarhaldi á Íslandsbanka og Landsbankanum. Ég hef talað fyrir því að ríkið verði áfram stór eigandi í Landsbankanum. Það er ekki verið að taka ákvörðun hér um neitt annað en að veita heimild fyrir sölu á allt að 30% hlut. Við eigum eftir að taka sérstaka umræðu um það síðar með hvaða hætti verði staðið að þessari sölu. Sú tillaga mun ekki fæðast í fjármálaráðuneytinu eða forsætisráðuneytinu heldur verður hún unnin lögum samkvæmt í Bankasýslunni. Við getum vonandi fengið að sjá hana sem allra fyrst, þ.e. tillögu Bankasýslunnar um það hvernig eigi að standa að þessu. Hvers vegna ættu menn fyrir fram að leggjast gegn þeim hugmyndum sem ekki eru komnar fram?

Það er síðan seinni tíma mál að kanna (Forseti hringir.) hvenær Sjálfstæðisflokkurinn getur keypt sér skoðanakönnun og fengið hana birta á forsíðu Fréttablaðsins. (ÖJ: Vegna þess að það er verið að afhenda …)