145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir um klukkutíma síðan, næstum einum og hálfum, kannaðist stjórnarandstaðan ekki við neitt samkomulag og var ítrekað kallað fram í: Hvaða samkomulag? Hvaða samkomulag? (Gripið fram í.)

Nú kannast menn heldur betur við þetta samkomulag vegna þess að búið er að veifa því framan í þá og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur gengist við því. Hann skilur það hins vegar þannig (Gripið fram í.) að skýrt orðalag um að klára málið í september sé bara eitthvað sem menn verði að túlka hver á sinn hátt. Ég get ekki skilið hann betur en að hann leggi til að framvegis verði sérstakir skilmálar og að þetta verði útskýrt í löngu máli, svo væntanlega verði því þinglýst og varnarþing sett ef ágreiningur kemur upp. Þetta er alger vitleysa. Samið var um að klára þetta mál og það er það sem við ætlum að gera. Þetta er að verða eitt mest rædda mál Íslandssögunnar, sem er galið. Göngum til dagskrár, klárum þetta mál. (Forseti hringir.) Það hefur allt verið sagt í því sem þarf að segja. Förum (Forseti hringir.) svo í húsnæðismálin og svo sannarlega stöndum við framsóknarmenn með okkar ráðherra.