145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kann að koma haganlega að orðum og oft hefur hann dregið upp skarpar andstæður með mjög sterkum litum. Á þessum degi eru mér ofarlega í huga skarpar andstæður sem hafa skapast hérna. Við erum að ræða fjáraukalög þar sem hv. þingmaður og ég, eða flokkar okkar, erum flutningsmenn að tillögu um að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar hækkanir og við leggjum til 6,5 milljarða til þess. En það hefur margsinnis komið fram í umræðum síðustu daga að þingmenn stjórnarliðsins telja að engir peningar séu til til að gera það. Með öðrum orðum, í blússandi góðæri er ríkissjóði svo féskylft að hann hefur ekki peninga til þess. En í dag, á þessum degi er búið að afgreiða eða fullræða að minnsta kosti hinn svokallaða bandorm. Þar er á tveimur stöðum verið að gera breytingar á tekjuskatti sem mér sýnist að séu samtals meira en þarf til að láta aldraða og öryrkja fá þær bætur sem við erum að berjast fyrir.

Önnur breytingin, sem er breytingar á samsköttun, felur í sér tillögu sem hv. þm. Willum Þór Þórsson upplýsti í umræðum í gærkvöldi að kostuðu ríkissjóð 3,5 milljarða. Látum það nú vera. En hér fyrr í dag var líka verið að þrautræða tillögu sem felur í sér skattbreytingar og leiðir til þess að fólk sem er til dæmis með 700 þús. plús fær langmest. Þetta kostar 6,5 milljarða.

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þetta ekki vera andstæður og hvort honum finnist ekki hér kristallast sá pólitíski ágreiningur sem hefur verið á millum stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar. Ég vildi gjarnan fá hv. þingmann til að (Forseti hringir.) segja mér og þingheimi sína skoðun á þessu.