145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir það að þó svo að ég hafi ekki setið hér á þingi á síðasta kjörtímabili þá tók ég alveg eftir því að forgangsröðunin hjá þeirri ríkisstjórn var alveg skýr. Auðvitað var það svo að allir hópar fengu á sig kjaraskerðingu eftir hrun, en þær tölur sem ég hef séð sýna að kjaraskerðingin varð minnst hjá þeim tekjulægstu. Það sýnir mér svart á hvítu að forgangsröðunin var rétt. Auðvitað er það slæmt að tekjulágt fólk verði fyrir kjaraskerðingu, að sjálfsögðu, en tímarnir voru einstakir.

Varðandi þessa umræðu um að lífeyrisþegar eigi ekki að hafa sömu tekjur og lágmarkslaun eru, þá hefur það því miður komið fram í þessari umræðu að það er ekki bara hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sem hefur látið þau orð falla, heldur kom þetta líka fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Því miður. Þar brá mér ansi mikið. En hæstv. ráðherra dró það einmitt inn í umræðuna að það væru ungir karlmenn sérstaklega sem væru að fara inn í bótakerfið — það eru 870 karlmenn undir 30 ára sem eru á bótum. Þar með gerði hann heilan hóp, sem telur um 45 þús. manns, á einhvern hátt tortryggilegan.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann sammála mér um að hér sé verið að drepa umræðunni (Forseti hringir.) á dreif með því að gera lífeyrisþega tortryggilega og þar með fá réttlætingu á því að kjör þeirra séu ekki bætt vegna þess að þetta sé hvort eð er hópur af svindlurum?