145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er orðinn langeygur eftir að ég taki undir með honum en orð hans hér eru sem fagur bjölluhljómur í mín eyru, sérstaklega hvað varðar það að setja inn samráð í stað kynningar. Ég held að við eigum að læra af því sem við töluðum um í kringum stöðugleikaframlögin, að mikilvægt er að skrifa þessa hluti skýrt inn í lög.

Hvað varðar skýrslugjöf tel ég svo að ráðherra hafi lýst því yfir í framsögu sinni að hann sé meira en reiðubúinn til að gefa slíkar skýrslur um framvindu málsins. Ég held að mikilvægt sé að við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd förum nánar yfir það hvernig því verður háttað. En ég heyri ekki betur en að hér sé vilji til að gera þetta með (ÖS: Með stæl.) sem skýrustum og skilvirkustum hætti gagnvart þinginu. Með stæl, hv. þingmaður.