145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að við séum að ljúka meðferð þessa máls á þinginu. Þetta er áfangi á þeirri leið að gera betur í ríkisfjármálunum. Í þessu nýja frumvarpi felst áhersla á langtímahugsun og stefnumótun. Við gerum mjög miklar kröfur til stjórnkerfisins, til ráðuneytanna, sem mun taka til sín. Það verður stóraukið álag á ráðuneytum við að tefla fram samhliða fjárlagagerðinni langtímastefnumörkun í einstaka málaflokkum.

Varðandi fjármálaregluna hefur hún gefið mjög góða raun annars staðar. Ef menn horfa til þeirra landa þar sem hlutirnir eru í lagi er það að jafnaði einkennandi fyrir þau lönd að þau hafa fjármálareglur. Við höfum sett slíkar fjármálareglur fyrir sveitarfélögin á Íslandi. Það hefur sömuleiðis gefið góða raun. Fjármálareglan er orðin viðmiðið. Það er almennt viðurkennt í málefnum sveitarfélaganna að vísa til fjármálareglunnar um það hvort vel gangi (Forseti hringir.) eða illa. Við á Íslandi ættum að hafa í huga að við erum með einn mesta frumjöfnuð sem fyrirfinnst í Evrópu. Okkar vandi liggur í skuldahliðinni. Það veitir einmitt ekki af því að setja sér reglu á borð við þessa til að vinna á þeim aðalvanda ríkisfjármálanna sem liggur í skuldunum. Þeir sem boða að þeir muni breyta þessari reglu eru að boða að þeir muni (Forseti hringir.) koma hér fyrir þingið og segja síðar: Við skulum skulda meira, við skulum reka ríkið með meiri halla til lengri tíma en lögin boða.

Ég mun ávallt mótmæla því.