145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og með framlögin sem Vegagerðin fær í einskiptisaðgerðir. Eins og hv. þingmaður veit höfum við margrætt það en það breytir því samt ekki að það er umfram markaðar tekjur og það hefur færst sem neikvætt eigið fé hjá Vegagerðinni. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Ég mundi vilja að það yrði kannað vegna þess að þau einskiptisframlög sem þar hafa verið veitt hafa færst þannig. Ekkert staðfestir fyrir mér í þessari aðgerð að það verði ekki þannig.

Þetta eru vinsamlegar athugasemdir af því að mig langar til að þetta verði kannað rækilega. Ég sé að ráðherra er hér að hvíslast á við formann fjárlaganefndar og beini því þeim tilmælum til þeirra að þau séu með öll skilningarvit opin og velti fyrir sér hvernig ríkisbókhaldið ætlar sér að færa þetta.