145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara draga það fram hér að það sem við höfum gagnrýnt er að þessi hæstv. ríkisstjórn er að létta álögum á öllum póstum af allra ríkasta fólkinu í landinu. Það er hún að gera líka núna með tekjuskattsbreytingunum. Þeir sem eru með 700 þús. kr. fá mest út úr þeim, svipuð kjör og við alþingismenn erum með, en þeir sem eru fyrir neðan 450 þús. kr. fá 3 þús. kr. eða minna. Þeir sem eru með 850 þús. kr. og meira fá 3 þús. kr. Þetta kostar 5,5 milljarða. Á sama tíma er verið að fella niður og gefa afslátt af veiðigjaldi og auðlegðarskatturinn er með engu móti endurnýjaður.

Þetta skiptir máli, að auðmennirnir fá peninga frá hægri stjórninni upp í hendurnar en aldraðir og öryrkjar eiga bæði að borga meira fyrir þjálfunarþjónustu, hjálpartæki og læknisþjónustu og fá lægri greiðslur en þeir sem eru á lægstu laununum.

Hv. þingmaður talar um að við höfum skorið hlutfallslega meira niður í heilbrigðismálum en á öðrum sviðum. Það kemur mér vissulega á óvart vegna þess að þegar við fórum í þær aðgerðir sem nauðsynlegar voru á síðasta kjörtímabili var alltaf lægra hlutfall á heilbrigðismál, skólamál o.s.frv. Á velferðarþjónustuna var alltaf lægri niðurskurðarprósenta en til dæmis á stjórnsýsluna. Ég þarf að skoða þetta svar sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) vitnar í, en þetta var það sem við unnum eftir á síðasta kjörtímabili, að skera niður með lægri prósentu til heilbrigðiskerfisins. Við hættum að skera niður árið 2012 og byrjuðum að gefa til baka árið 2013 og það hefði þurft að gera stigvaxandi núna.