145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

neytendasamningar.

402. mál
[15:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um neytendasamninga. Frumvarpið felur í sig innleiðingu ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB frá 25. október 2011, um réttindi neytenda. Tilskipunin leysir af hólmi tilskipun ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga. Báðar þessar tilskipanir hafa verið innleiddar hér í lög nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Það er því er ljóst að til þess að innleiða megi tilskipun 2011/83/ESB þarf að breyta lögunum. Til einföldunar er lagt til að sett verði ný heildarlög um efnið.

Mikilvægt er að lög og reglur sem hafa að markmiði að tryggja rétt neytenda séu skýrar. Hef ég þess vegna ákveðið að fari fram heildarendurskoðun á neytendalöggjöfinni með það í huga að hún verði gerð einfaldari, gagnsærri og heildstæðari.

Markmið þeirrar tilskipunar sem lagt er til að verði innleidd með þessu frumvarpi er að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytendur áður en samningur um kaup á vörum eða þjónustu verður skuldbindandi af hálfu neytenda. Tilskipuninni er þannig ætlað að tryggja bættan hag neytenda.

Frumvarpið var kynnt á vef ráðuneytisins og tveggja vikna frestur veittur til athugasemda. Athugasemdir bárust frá Neytendastofu og Neytendasamtökunum. Í frumvarpinu hefur verið tekið tillit til athugasemda þessara aðila en þær lutu einkum að orðalagi og heiti laganna.

Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um reglur sem gilda um samninga sem gerðir eru utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga. Í II. kafla frumvarpsins er þó að finna sérreglur um upplýsingagjöf vegna annarra samninga sem gerðir eru við neytendur.

Helstu breytingar sem verða við innleiðingu tilskipunarinnar eru þessar: Í fyrsta lagi eru gerðar strangari kröfur um form samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga, svo sem staðfestingu á samningi og hvernig upplýsingagjöf skuli háttað. Í öðru lagi er skýrar kveðið á um réttindi neytenda til að falla frá samningi, en meginreglan verður sú að neytandi hafi til þess 14 daga.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og vísa að öðru leyti til athugasemda sem fylgja frumvarpinu.

Verði frumvarpið að lögum hefur það í för með sér aukinn rétt neytenda til upplýsinga og til að falla frá samningi. Breytingarnar eru vissulega íþyngjandi fyrir seljendur vöru og þjónustu en vert er að hafa í huga að samræming reglnanna innan EES-svæðisins getur auðveldað íslenskum seljendum að selja vörur sínar erlendis.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.