145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Heilbrigðismálin eru einn stærsti málaflokkurinn sem við ræðum í þinginu og ein stærsta spurningin í síðustu kosningum var um málefni hjúkrunarheimilanna, a.m.k. aðalumræðuefni okkar í Suðurkjördæmi. Það er vegna þess að við eigum öll einhvern sem er annaðhvort að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili eða þarf á þjónustunni að halda. Það var alveg ljóst þegar ég tók sæti á þingi á síðasta kjörtímabili að það var ekki til heildstætt plan um hvert ætti að stefna. Það var ljóst að það vantaði fleiri rými en það var engin áætlun í gangi um hvað ætti að gera hvar og hver þörfin væri og hvaða þjónustu þessi heimili ættu að veita.

Enginn sem situr fyrir flokk sem var í síðustu ríkisstjórn eða núverandi ríkisstjórn á að vera eitthvað hissa yfir þeim verkefnum sem blasa nú við. Við þekkjum þetta. Það er gott að þessi umræða fer fram hér í dag til að reyna að nálgast hvernig við ætlum að leysa málið. Það sem við verðum að gera er áætlun um það hvernig við ætlum að byggja upp þessa þjónustu. Hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson er að vinna að slíkri áætlun. Það er gott. Það var kallað eftir því á síðasta kjörtímabili að slíkt væri gert en ekki var farið í það. Það er gott að það starf er byrjað. Ég vonast til að við getum öll staðið saman að því að framfylgja slíkri áætlun þegar hún liggur fyrir.

Varðandi daggjaldavandann sem hefur komið fram í umræðunni er alveg ljóst að hann er heldur ekki nýr. Ég var sveitarstjóri í Rangárþingi eystra áður en ég tók sæti hér á þingi og við rákum hjúkrunarheimili og borguðum alltaf hallann fyrir ríkið. Þetta er því ekki nýtt verkefni, en það er samt stórt. Ég vonast til þess að þær viðræður sem ráðherra og fleiri standa í núna varðandi þessi mál beri árangur.

En vegna þess sem hér kom fram í ræðu síðasta ræðumanns varðandi dvalarheimili — dvalarheimili sem slík eru kannski á útleið, ég held að slík hrein dvalarheimili séu á útleið, en við megum ekki leggja af öll dvalarrými vegna þess að það er reynsla okkar Rangæinga, t.d. í eldgosunum, (Forseti hringir.) að það sé gríðarlega mikilvægt að eiga slík rými fyrir fullorðna einstaklinga sem verða í rauninni að (Forseti hringir.) flytja að heiman í slíku ástandi og treysta sér ekki til að vera lengur heima en verða að fá þjónustu.