145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ábyrgur fjármálaráðherra sem ekki væri bara heftur af einhverjum hugsjónalegum ástæðum mundi að sjálfsögðu ekki styðja svo glatt eitthvað sem yki áfengisneyslu og áfengisvandamál með þeim skelfilegu útgjöldum og þjóðfélagslegu sóun sem það hefur í för með sér, það liggur náttúrlega ljóst fyrir. Það er ekkert annað hægt en að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé alveg sérstakt hugðarefni Sjálfstæðisflokksins eða ákveðinna afla þar sem virðast hafa náð undirtökunum eins og hér var nefnt, meira að segja er því gert svo hátt undir höfði að geta sérstaklega um það í stefnuumræðum að þetta mál sé nú komið á dagskrá. Það bregst aldrei að þegar þetta mál á í hlut þá er gert sérstakt áhlaup, úthlaup, í fjölmiðlana. Þetta verður að sérstöku gæluumfjöllunarefni í fjölmiðlum og það er verið að telja hausa og það bregst yfirleitt ekki heldur að það er reynt að gera alla sem andmæla málinu einhvern veginn hallærislega. Það er ekki reynt að mæta þeim með rökum, enda eru þau svo fátækleg fyrir málinu. Þá er brugðið á hitt að reyna að gjaldfella málflutning manna með því að segja að þeir séu gamaldags, hallærislegir, þeir hafi jafnvel verið á móti bjór, ég veit ekki hvað og hvað. Mér finnst bara vanta svart/hvíta sjónvarpið, að við hefðum viljað hafa það áfram. (Forseti hringir.) Það eru svona dapurlegar röksemdir sem færa mér heim sanninn um það að menn hafi ekki margar aðrar og efnislega sterkari máli sínu til stuðnings. (Forseti hringir.) Þess vegna er reynt að koma þessu svona áfram.