145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki fallist á það að áfengi sé venjuleg vara því að áfengi hefur ekki bara áhrif á líkamann beint heldur líka á hug og hegðun fólks.

Varðandi rannsóknir á drykkju ungmenna, sem hefur verið rannsökuð í tætlur, á Íslandi, á öðrum Norðurlöndum og út um allt, vegna þess að áfengisdrykkja ungmenna er ákveðið vandamál, þá höfum við náð árangri hér á landi. Það hefur líka náðst ágætur árangur í Svíþjóð og Finnlandi, en Danmörk er í miklum vandræðum. Það er líka eina landið af þessum löndum sem selur áfengi í matvörubúðum og rannsóknir sýna að þarna eru ákveðin tengsl á milli.

Við eigum að læra af rannsóknum. Hver og einn getur horft á sinn raunveruleika. Við erum mörg hér inni börn alkóhólista. (Forseti hringir.) Við vitum hvernig þetta virkar allt saman. Við vitum að aukið aðgengi mun hafa kostnað í för með sér og auka vanlíðan.