145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað ekki svona einfalt. Sömu röksemd var beitt, þó að það fari kannski í taugarnar á einhverjum að maður noti það dæmi, þegar ákveðið var að leyfa sölu á áfengum bjór. Vitaskuld mundi það að leyfa sölu á áfengum bjór auka áfengisneyslu. Það gerði það. En það verður að spyrja á móti: Bætti það áfengismenninguna? Það er annað hugtak sem kemur inn í þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi gert það, já. Ég horfi á samfélag þar sem áfengisneysla hefur vissulega aukist (Gripið fram í.) og frelsi hefur aukist í sölu á áfengi, sem lýsir sér meðal annars í því að það er hægt að fá hér áfengi víðast hvar á hvaða tíma sólarhrings sem er á Íslandi. Það er nú eiginlega erfitt að ímynda sér meira aðgengi. Á sama tíma — og ég fullyrði þetta, ég hef staðið frammi fyrir heilum fundi hjá ÁTVR og fullyrt þetta og séð marga kinka kolli — hefur áfengismenningin á Íslandi batnað til muna samfara því að við höfum aukið frelsi. Ég held að það sé bara rétt leið.