145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að kostnaðarröksemdirnar eru ekki góðar að öllu leyti, ég nota þær ekki mikið. Fyrir mér er hinn mannlegi þáttur málsins miklu, miklu stærri. Það eru örlög þeirra barna og fjölskyldna sem búa við áfengisvandamál og eru þolendur þess að mönnum verður fótaskortur á svellinu í umgengni við þennan vímugjafa í stórum stíl og því fylgja stórkostleg vandamál.

Liður í baráttunni við það er að hafa þessa vöru ekki svo ódýra að það sé ekkert mál að kaupa hana í stóru magni. Þrátt fyrir ýmsa skavanka á því að hafa áfengi mjög dýrt vegna þess að þá má segja að þeir sem eru tekjulágir eigi býsna erfitt í þeim efnum borið saman við hina, og það er alveg rétt að þetta er dýr vara, þá hafa menn samt komist að þeirri niðurstöðu. Almennt er mælt með því að hafa þessa vöru mjög dýra og það er gert með því að ríkið leggi gjald á varninginn. Vissulega er það þá svo að til ríkisins renna tekjur sem það hefur til þess m.a. að glíma við afleiðingar af áfengisneyslu og sérstaklega ofnotkun áfengis. Það er í reynd þannig að þótt til lýðheilsusjónarmiða sé bara eyrnamerkt 1% af áfengisgjaldinu, þá eru þeir 10–12 milljarðar eða hvað það nú er sem áfengisgjaldið skilar ef ég man rétt, auðvitað bara dropi í hafið þegar við horfum til kostnaðarins sem ríkið ber beint í gegnum heilbrigðiskerfið, löggæsluna og fleiri þætti, að ógleymdum samfélagskostnaði. Þessar tekjur eru þó þarna þótt þær séu ekki beint eyrnamerktar þessu. Þjóðhagslega er ofnotkun áfengis eitt dýrasta vandamál hvers samfélags vegna þess að vinnutapið, slysin, frátafir frá vinnu, veikindi og ýmislegt annað sem kemur kannski ekki beint inn á borð ríkisins fyrr en síðar meir, (Forseti hringir.) veldur ómældum skaða annars staðar í samfélaginu svo sem eins og í atvinnulífinu.